Peruterta
- Elín Sizemore
- Nov 22, 2024
- 2 min read
Peruterta er án efa uppáhalds tertan mín. Peruterta er ekta rjómaterta sem vinsæl hefur verið á veisluborðum Íslendinga í mörg ár. Hún er svo temmilega sæt og rosalega fersk einnig og er því ekki eins og margar aðrar kökur sem eru aðallega sætar. Þessi terta er því gott jafnvægi á móti öðru sætu á veisluborðið vegna þess hversu fersk hún er.
Ég viðurkenni að langoftast nenni ég sjálf ekki að baka botnanna og kaupi þá tilbúna því rjóminn er smá vesen að búa til og þarf að vanda verka til að ná honum alveg eins og hann á að vera. Ég hef þessa tertu alltaf sem eftirrétt annan í jólum en geri hana oft í veislum einnig og það bregst ekki að hún klárast alltaf.
Uppskriftin sem ég notaðist við núna er á https://www.gottimatinn.is/uppskriftir/hin-eina-sanna-peruterta, en ég fann ekki uppskriftina sem ég er með frá mömmu að hennar botnum, sem eru langbestir. Þessir botnar heppnuðust samt mjög vel og auðvelt að gera og einnig góðir á bragðið.
Ég gerði tvöfalda uppskrift núna þar sem ég var að baka tvær perutertur fyrir kökusölu 9. bekkjar.
Uppskrift svampbotnar:
4 egg
200 g sykur
130 g hveiti
1 tsk lyftiduft
Aðferð:
Hitið ofninn í 175 gráður með blæstri.
Þeytið egg og sykur mjög vel saman þar til blandan er ljós og létt.
Sigtið saman hveiti og lyftidufti og hrærið varlega saman við með sleikju.
Setjið í tvö smurð og bökunarpappírsklædd kökuform og bakið þar til botnarnir eru gullnir að lit eða í u.þ.b. 12-15 mínútur.
Kælið á grind.
Súkkulaðirjómi
150 g suðusúkkulaði
5 stk eggjarauður
5 msk flórsykur
4 dl rjómi
Aðferð:
Bræðið súkkulaðið við vægan hita eða yfir vatnsbaði.
Stífþeytið rjómann og setjið til hliðar.
Stífþeytið saman eggjarauður og flórsykur þar til blandan er ljós.
Blandið bræddu súkkulaðinu saman við eggjablönduna..
Hrærið að lokum rjómanum varlega saman við.
Annað:
1 stór dós niðursoðnar perur (420 g)
Samsetning:
Sigtið vökvann frá perunum og geymið. Leggið annan svampbotninn á disk og vætið vel í honum með helmingnum af perusafanum.
Skerið helminginn af perunum í litla bita og hinn helminginn í sneiðar til að skreyta tertuna með.
Setjið u.þ.b. 1/3 af súkkulaðirjómanum á botninn og dreifið perubitum yfir.
Bleytið seinni svampbotninn með perusafa og leggið svo ofan á.
Setjið restina af súkkulaðirjómanum ofan á tertuna, dreifið vel úr niður á hliðarnar og skreytið með perusneiðum svo úr verður dásamleg rjómaterta.
Aðferð í myndum:
Hráefni og áhöld


Þeyta egg og sykur þangað til blandan verður ljós og létt og svo sigta hveiti og lyftidufti við og blanda með sleif.



Settir í form með bökunarpappír og bakaðir í 12-15 mínútur þangað til þeir verða gylltir.

Eru að vísu á hvolfi hérna. Ég bakaði þá nokkrum dögum áður og frysti. Hafði bökunarpappír á milli botna og svo plastpoka yfir.

Krem.
Bræða súkkulaði og leyfa aðeins að kólna.
Stífþeytið rjómann.
Stífþeyta í annarri skál eggjarauður og flórsykur.

Rjómi

Eggjarauður og flórsykur stífþeytt

Súkkulaðið er svo blandað saman í eggja og flórsykurblönduna


Rjómanum blandað svo VARLEGA saman við með sleif


Samsetning köku:
Setja annan botninn á kökudisk og penslið með vökvanum frá perunum.
Setjið svo smátt saxaðar perur yfir.
1/3 af súkkulaðirjómanum.
og botn yfir


Penslið svo seinni botninn með perusafanum.
Setjið rest af rjómanum.
Skreytið með perum.




Comments