Brauðterta með skinku
- Elín Sizemore
- Nov 22, 2024
- 3 min read
Brauðtertan hefur verið vinsæl hér á Íslandi í áratugi og þá eru fyllingar eins og rækjur, hangikjöt, skinka, lax og túnfiski verið svona það vinsælastar. Það fór aðeins minna fyrir henni í nokkur ár og nýrri réttir og trend tóku meira pláss á veisluborðum, en hún er að verða ansi vinsæl aftur.
Ég ólst með brauðtertur á veisluborðum og hef haldið í þá hefð hvort sem það er í veislum eða á hátíðum eins og jólum og páskum. Skonsubrauðtertan er líka eitthvað sem ég ólst upp með og er hún eitt það besta sem ég fæ. Brauðtertur er gott mótvægi á móti sætindum í veislum þar sem þær eru kaldar, með kjöt eða fisk í og skreyttar með grænmeti (oft allavega).
Ég legg mikið í að gera gott salat og hef metnað í skreytingar á brauðtertunum. Ég vil ekki hafa of mikið, lekandi majónes í salati eða ofan á brauðtertunni, en það er ákveðin leikni að detta ekki í of mikið eða of lítið majónes.
Ég er mjög íhaldssöm í salatgerðinni og er ekki mikið fyrir að gera tilraunir með ný krydd eða setja grænmeti eða ávexti í salatið sjálft, en leyfi mér alveg að setja ýmislegt sem skraut á brauðtertuna.
Góð regla þegar maður skreytir brauðtertu að ef þú ert að gera skinkubrauðtertu er skreytt að hluta til með skinku og rækjum á rækjubrauðtertum, en það er fyrir matargestina að sjá hvað er inn í brauðtertunni.
Mér finnst einnig mikilvægt að gera salatið og setja á brauðtertuna daginn fyrir veislu og skreyta svo samdægurs. Þá er majónesið aðeins farið í brauðið og brauðtertan verður meira djúsí.
Að þessu sinni gerði ég skinkubrauðtertu. Ég notaði tækifærið þar sem ég á barn í 9. bekk og sá bekkur sér um kaffisölu þegar foreldraviðtöl eru til að safna fyrir ferðalagi að brauðtertan færi í kaffisöluna. Ég gerði stóra uppskrift af salati sem er bara mín eigin uppskrift sem ég nota alltaf í veislum. Þessi uppskrift passar alveg fyrir 3 hæðir af salati og þarf alveg að kaupa þrjú langskorin brauðtertubrauð.
Uppskrift
1/2 kg skinka smátt skorin
3 brauðtertubrauð langskorin
750 g majónes (í salat)
10 harðsoðin egg
aromat (eftir smekk)
Paprikukrydd (eftir smekk)
Ofaná:
1/2 dolla sýrður rjómi
ca 400 gr majónes
Skrautið sem ég valdi:
Steinselja
Litlir tómatar
Gúrka
Ferskt dill
bláber
Græn vínber
Silkiskorin skinka
Aðferð:
Egg soðin, skel tekin af og skorin með eggjaskera á báða vegu svo bitarnir verða litlir og sett í skál.
Skinka skorin í litla bita og sett í skál ásamt eggjum.
Majónes bætt við og hrært.
Kryddið eftir smekk, ég set alveg duglega af hvoru tveggja, en algjört smekksatriði og sniðugt að smakka til.
Samsetning brauðtertu:
Skerið skorpuna af brauðtertubrauðinu og raðið á þann disk/bakka sem þið ætlið að bera brauðtertuna á.
Setjið fyrsta lag af salati.
Endurtekið þangað til þið eruð með í þessari röð -brauð, salat, brauð, salat, brauð, salat, brauð.
Setjið plastfilmu yfir of geymið í ískáp þangað til daginn eftir þegar bera á brauðtertuna fram.
Skreyting:
Mestu skiptir máli að leika sér svoldið með hráefnin. Alltaf er hægt að finna hugmyndir á netinu og facebook hópum fyrir brauðtertuáhugafólk ef þér vantar innblástur.
-Blandið saman majónes og sýrðum rjóma vel saman og hyljið brauðtertuna (hliðar líka). Ekki ofhlaða á tertuna en ekki heldur of lítið. Það er allt í lagi að það sé smá afgangur.
Myndir:
Brauðtertan sem ég gerði var vel stór en það er alveg hægt að nota þessa uppskrift, minnka og gera fleiri lög af salati í staðinn. Þá verður tertan aðeins hærri.

Hvert lag var með sirka svona miklu af salati.

Hér er ég byrjuð að skreyta og sést að ég er ekki að drekkja tertunni í majónesi ofaná.






Comments