Eggjalaus súkkulaðikaka með súkkulaðikremi
- Elín Sizemore
- Sep 17, 2024
- 2 min read
Updated: Sep 20, 2024
Þessa súkkulaðiköku gerðum við í áfanga sem heitir "Sérfærði og matur við sérstök tækifæri". Þessi uppskrift er eggjalaus og hentar því vel fyrir þá sem eru með eggjaofnæmi. Í staðinn fyrir egg er hvítvínsedik notað. Uppskriftin er mjög stór og hentar því vel í skúffu eða í tvö form ca 20*30 cm stór. Hlutverk eggja í bakstri er margur en þar má nefna að þau hjálpa til með lyftingu, raka, bragð, bindingu hráefna, og eggjarauðan gefur mýkri áferð.
Hægt er að nota önnur hráefni í stað eggja t.d. edik, eplamauk, avocado, banana, kjúklingabaunir, chia fræ bleytt í vatni, hnetusmjör og vegan jógúrt.
Auðvelt er að fara eftir uppskriftinni og bökunartíminn er um 1 klst. Kakan er virkilega góð og er einnig svoldið þétt í sér og hentar því vel til að skreyta t.d. fyrir afmæli, þar sem hún molnar ekki mikið. Þar sem bökunartíminn er frekar langur hentar þessi ef til vill ekki í kennslu.
Stillið ofninn á 180 gráður á undir og yfirhita (ekki blástur)
Kökubotnar:
450 g hveiti
6 msk kakó
2 tsk lyftiduft
2 tsk matarsódi
300 g sykur
125 ml matarolía
300 ml vatn
2 msk hvítvínsedik
2 tsk vanilludropar
Aðferð:
Forhitið ofninn í 180 gráður.
Sigtið saman hveiti, kakó, lyftidufti og matarsóda í stóra skál og blandið sykri saman við.
Blandið öllum vökva og olíu saman í aðra skál.
Hellið vökvablöndunni saman við þurrefnin í einu lagi og hrærið rólega þar til deigið er mjúkt og kekkjalaust, bætið við vatni ef þarf.
Setjið deigið í bökunarpappírsklætt form og bakið í um það bil 60 mínútur eða þar til að prjónn sem stunginn er í kökuna kemur þurr út.
Takið kökuna úr forminu og kælið.
+
Krem yfir kökuna:
4 dl flórsykur
4 msk kakó
75 g smjör
1 msk sýróp
4 msk kaffirjómi
Aðferð:
Sigtið saman flórsykur og kakó.
Hitið við vægan hita í litlum potti smjör, sýróp og kaffirjóma þar til smjörið er bráðnað.
Hellið þá vökvanum út í þurrefnin og hrærið þangað til kremið er mjúkt og kekkjalaust.
Hrærið áfram rösklega með trésleif þar til kremið hefur kólnað aðeins og þykknað.
Smyrjið snyrtilega yfir kökuna.

Comentários